Gisting

Ferðaþjónustan “Bakland að Lágafelli” byggir á útleigu á íbúð í kjallara íbúðarhúsins. Íbúðin er 55fm og hönnuð var af fyrirtækinu ProArk á Selfossi út frá hugmyndum um Algilda hönnun. Hér er átt við að mannvirki séu hönnuð með það í huga að gera ávallt ráð fyrir öllum hvað varðar rými.
Í lögum má finna nýjar áherslur í hönnun mannvirkja þar sem krafan er að fólk sem á við hvers kyns fötlun eða veikindi að stríða geti með öruggum hætti komist inn og út úr húsi og að við hönnunina séu mismunandi þarfir og geta fólks hafðar í huga meðal annars í tilliti til sjónar og heyrnar.
Áætlað er að minnst tíu prósent íbúa landsins búi við hreyfihamlanir eða annars konar fötlun. Að auki má telja þá sem hafa skerta hreyfigetu vegna aldurs og tímabundinna aðstæðna, t.d. vegna slysa, þungunar og vegna þess að þeir eru með börn í kerrum og barnavögnum. Eldri borgarar glíma margir hverjir við ýmiskonar hamlanir, svo sem slæma sjón, skerta heyrn og gigt en þessi ört stækkandi hópur er engu að síður oft við tiltölulega góða heilsu og vel ferðafær.

Við viljum gjarnan hafa það að leiðarljósi í okkar ferðaþjónustu að geta tekið á móti breiðum hópi fólks en áherslan er aukið rými og þægindi.  En við ætlum okkur sérstaklega að höfða til fatlaðs fólks með hvers kyns hreyfiskerðingu.  Aðgengið í íbúðinni í kjallaranum hefur verið sérhannað vegna þessa markhóps, þó það viðurkennist fúslega að Algild hönnun og betra rými sé að sjálfssögðu ávallt besti kostur fyrir alla.   Fastar innréttingar, hafa verið stilltar þannig upp að þær nýtist fötluðu fólki sem situr í hjólastól og við gerum ráð fyrir að sinna þessum markaði sérstaklega og áframhaldandi hönnun við ferðaþjónustuna hér mun miða að því að gera aðgengi bæði inni og úti, sem best úr vegi fyrir alla.

Íbúðin er fullbúin tækjum og verður útleigð með laki á rúmum, sængum og koddum. Handklæði verða á baði, þvottastykki í eldhúsi.  Íbúðin óskast þrifin fyrir skil.  Eitt hjónaherbergi er í íbúðinni. Þar inni er king size hjónarúm með náttborðum, stól og skáp með hengi.  Hægt er að koma við barnarimlarúmi.  Í stofunni eru 2 svefnsófar og 90*200 einbreitt rafmagnsrúm, sjónvarp á sjónvarpsskáp.  Aðeins er boðið upp á Rúv sjónvarpsendingar.  Útvarp er á kommóðu.  Í eldhúsi eru öll helstu eldhústæki og á baði er þvottavél.  Í augnablikinu er útisvæði ófrágengið en við stefnum á það á vormánuðum að breyta og bæta aðgengi úti.

Að sjálfssögðu munu gestir okkar vera velkomnir að heimsækja okkur í útihúsin, þar þarf reyndar að fara í viðamiklar breytingar til að gera aðgengi sem allra best en það er hægt að komast í kálfa og kindur með auðveldum hætti og svo eru yfirleitt hross á vappi í kringum bæinn.  Hundar og kettir á hlaupum og svo er nátturan hér glæsileg; fjallasalir í fjarska sem óma við sléttlendið og mikið fuglalíf í kringum bæinn sjálfan.  Fastagestir í garðinum eru m.a. Fálki og Ugla, en músarindill, þrestir og starrar yfir vetrartímann, Dúfur hafa stundum gert sig heimakomnar hér.  Á sumrin er að sjálfssögðu allt í blóma og miklar breytingar í dýralífi og aðgengi að húsdýrum.  Þátttaka gesta í lífi og starfi er að sjálfssögðu leyfileg, ef gestir kæra sig um.  Slíkum óskum er þó vert að koma á framfæri fyrirfram, svo að hægt sé að gera viðeigandi ráðstafanir.

Við vilju árétta, vegna þess að þetta er lifandi býli og starfsemin hér á bóndabænum helst í hendur við ferðaþjónustuna að hver og einn er hér á eigin ábyrgð hvað varðar hættur bæði af dýrum og tækjum.   Því er fullorðna fólkinu nauðsynlegt að vita hvar börnin eru og af því við ætlum að leyfa gæludýr, þá viljum við einnig benda á að það er á ábyrgð eigenda gæludýranna að gæta þeirra á meðan á dvöl stendur – sérstaklega hvað varðar útiveru þeirra á bænum.  Gæludýr skulu koma með vottun um heilbrigði; heilsufarsbók og vera bólusett/ormahreinsuð.   Nauðsynlegt getur verið að viðkomandi eigandi hafi með sér búr og festu/taum svo að hægt sé að hafa heimil á viðkomandi einstaklingi.

Við höfum ekki heimild til að elda ofan í fólk eða bjóða fram veitingar.  En við erum söluaðilar Beint frá býli og getum selt kjöt úr kistunni á pönnuna, í ofninn eða á grillið.  Ef áhugi er fyrir slíkri þjónustu er þó nauðsynlegt að viðkomandi láti okkur vita með fyrirvara.

Velkomin í heimagistingu á Lágafelli.

Sæunn og Halldór, Lágafelli

Leave a Reply

Your email address will not be published.

Scroll to Top